top of page
Search

Grímurnar

Góðan og blessaðan daginn ljúfa sál.

Hvað er þetta með að ávarpa sálina ? ljúfa sál, fallega sál ?

Í síðasta pistli skrifaði ég aðeins um hlutverkin okkar, þessi óteljandi hlutverk, sem oft á tíðum taka alla okkar athygli, oft svo mikla athygli að við sjáum ekki okkur sjálf, áttum okkur ekki á því hver við erum í raun og veru.

Ljúfa sál, ég ávarpa sálina þína, þar sem minn ásetningur er að koma skilaboðum mínum inn fyrir hlutverkin, inn fyrir grímurnar þínar, þessar grímur sem við öll höfum tilhneigingu til að setja upp í daglega lífinu.

Hefurðu veitt því athygli kæri lesandi, hvernig við setjum upp mismunandi grímur eftir aðstæðum? hvernig við setjum upp mismunandi grímur eftir því hvaða fólk er í kringum okkur ?

Stundum hef ég einmitt hugsað með mér, eftir að einhver samskipti hafa farið fram, bíddu hvað var ég að gera ? hver var ég á þessari stundu ? af hverju brást ég svona við ? hversvegna setti ég upp þessa grímu ?

Við sjáum í kringum okkur trúðinn, lúðann, sérvitringinn, viskubrunninn, við sjáum þann feimna, þann framhleipna, þennan sem þarf athygli osfrv...

Hefurðu velt því fyrir þér fallega sál hvað býr að baki þessum grímum ?

Hefurðu velt því fyrir þér ljúfa sál, hvaða grímur þú setur upp, við mismunandi aðstæður ?

Mér finnst merkilegt að velta þessu stundum fyrir mér. Ótrúlega oft, svona þegar maður veitir athygli, þá sér maður og finnur, bælda sorg, ótta, reiði, lágt sjálfsmat, kvíða og depurð.

Ein helsta ástæða þess að við setjum upp grímur er að fela innri vanlíðan, vanmat og þessháttar tilfinningar, það geta verið grímur; trúðsins, gleðinnar, góðmennskunnar, undirgefninnar og það geta verið grímur þess fúla á móti og grímur þess feimna og svo ótal margar fleiri. Vissulega eigum við þó undantekningar og stundum setjum við upp grímur til að létta öðrum lífið, já og jafnvel til að létta á okkur sjálfum.


Eins og gefur að skilja, þá eru sumar þessar grímur til þess fallnar að laða að sér fólk, fá einhverskonar viðurkenningu frá umhverfinu. Aðrar grímur eru til þess fallnar að halda fólki í hæfilegri fjarlægð, fá að vera í friði í eigin vanlíðan, já og stundum til að endurnæra sig.

En af hverju gerum við þetta ?

Að mínu viti þá notum við grímur, af ótta við að umhverfið okkar sjái eitthvað, sem við höldum að sé ekki nógu gott, eitthvað sem við höldum að sé ekki boðlegt. Einhverra hluta vegna höldum við í þá trú, að það sem býr hið innra, sé ekki nógu gott til að leifa öðrum að sjá það. Ótúrlega oft felum við okkur bakvið grímur til að fela einhverja skömm. Já og ótrúlega oft er það svo að þessi skömm er ástæðulaus.

Með sannleikanum kemur frelsið.

Þessi orð var ég svo lánsöm að fá að upplifa, fyrir nokkrum árum síðan, nánar tiltekið haustið 2011

Haustið 2011 markaði stór tímamót í mínu lífi, miklu stærri heldur en ég hafði forsendur til að átta mig á, á þeim tíma.


Eitt af mínum stóru skrefum þetta haustið, var að panta mér viðtal í Aflinu. Þegar tíminn var bókaður, sat ég og velti því fyrir mér, að þegar ég myndi mæta, þá gæti hver sem er séð mig fara inní þetta hús. Það gætu jafnvel einhverjir námkomnir mér, verið þarna á ferðinni á sama tíma og ég, kannski ekki miklar líkur, en allt getur gerst í henni veröld.


Það lá á mér eins og mara að ég yrði að segja fólkinu mínu frá því hvað væri í gangi. Ég einfaldlega gat ekki hugsað mér að kannski, hugsanlega fréttu krakkarnir mínir eða einhverjir aðrir af mínum nánustu, úti í bæ að ég væri að fara í Aflið.

Alla mína tíð hafði ég falið hið innra þetta ljóta leindarmál, að í fortíðinni minni væri reynsla af kynferðisofbeldi. Stór gríma, stór skömm, mikil vanlíðan.

Skrefin til ættingja og vina, voru þung, samtölin erfið, tárin mörg. EN magnaður var léttirinn yfir því að sannleikurinn var kominn uppá borð. VÁ ekki óraði mig fyrir því að þessi feluleikur væri svona þungbær, þessi feluleikur sem staðið hafði í áratugi, þessi feluleikur sem ég hafði upplifað sem mitt norm, mestan hluta minnar ævi.


Akkúrat og nákvæmlega þarna fann ég hvernig sannleikurinn gaf mér frelsi, frelsi til að vinna í þessu máli, frelsi til að gefa til kynna að ég ætti erfiða daga í úrvinnslunni, frelsi til að vænta tillitsemi og umhyggju á meðan erfiðir tímar gengu yfir, frelsi til að vænta þess að fólkið mitt gæti glaðst með mér yfir sigrunum mínum.


Að þurfa ekki að nota dýrmæta orku í að fela það ferli sem ég var í, gaf mér færi á að nýta þá orku í það sem var svo mikið dýrmætara. Þessa orku sem ég sparaði, gat ég nýtt í úrvinnsluferlið.


Þessi orka sem áður fór í það að halda grímunni á sínum stað, nýttist mér svo mikið betur og á svo miklu uppbyggilegri máta svona.

Grímur taka mikla orku, grímur viðhalda vanlíðan.

Þó svo að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum árum er liðið hafa, þá á ég enn grímur, það er langhlaup að koma sér útúr gömlu munstri. Það sem hins vegar er besta veganestið mitt í þessari vinnu, er að vera meðvituð, veita athygli og halda áfram. Stundum er ég ekkert í stuði til þess, stundum tek ég pásu, og veistu ljúfa sál, það má, við þurfum þess líka, allir hafa þörf til þess að leika sér inná milli, njóta lífsins og hlaða batteríin sín. Það merkilega er að akkúrat á þeim tímabilum, þegar manni finnst maður ekki vera í neinni sjálfsvinnu, þá er oft hellingur í gangi bak við tjöldin. Undirvitundin er í úrvinnslu.

Nokkuð ljóst er ljúfa sál, að þessir pistlar mínir hefðu ekki orðið að veruleika hefði ég ekki tekið þessi skref í mínu lífi haustið 2011, nokkuð ljóst er að enn væri ég að þjást í þögninni, skömminni og óttanum, hefði ég ekki tekið þessi skref haustið 2011.

Ljúfa sál hefur þú veitt þínum grímum athygli ? hefurðu velt því fyrir þér hvaðan þær koma ? hefurðu eitthvað velt því fyrir þér hvað þú vilt gera við þær ?

Fallega ljós, leifðu þér að njóta lífsins, leifðu þér að finna þitt innra jafnvægi, gleði hjartans og hinn innri frið.

Sigríður I Helgadóttir

Heilsu og Lithimnufræðingur.

Markþjálfi

49 views0 comments

Recent Posts

See All

Hún

Í einni svipan var veröldin breytt, hún var of ung, alltof ung, til að takast á við slíkar aðstæður, alltof ung til að upplifa slíka hluti, til að vita hvað væri í rauninni að gerast. Traustið brotnað

Hlutverkin

Heil og sæl fallega sál. Hefurðu stundum staldrað við og velt fyrir þér þessari spurningu, hver er ég ? hver er ÉG innst inni ? eða er ég ein um þess konar vangaveltur ? Það er merkilegt að skoða hver

Kassi lífsins

Heil og sæl ljúfa sál. Aftur og aftur stend ég mig að því að finnast ég hafa svo mikið að gera, svo mikið, að lítill tími sé til að sinna eigin þörfum, lítill tími sé til beinna samskipta við fólk, lí

Comments


bottom of page