Í einni svipan var veröldin breytt, hún var of ung, alltof ung, til að takast á við slíkar aðstæður, alltof ung til að upplifa slíka hluti, til að vita hvað væri í rauninni að gerast.
Traustið brotnaði, það skektist, til frambúðar, ja eða allavega til næstu áratuga. Karlmenn urðu allt í einu eitthvað varasamt, já nánast hættulegt, konur... ekki traustsins verðar.
Hún fór í viðvarandi varnarstöðu, alltaf viðbúin, alltaf í spennu, hvað gerist næst, hvar og hvenær.
Í einni svipan uppgötvaði hún eigið varnarleysi, hversu háð hún var fullorðnu fólki, þó svo að vera orðin stóra systir, þá hafði hún ekki stjórn á aðstæðum, ekkert vald yfir eigin tilveru, ofurseld fullorðnu fólki, fólki sem sumt hvert, sýndi í verki, að því væri ekki hægt að treysta.
Skömmin, óttinn, hún fór innávið, inní kvíðann, inní óttann við aðstæður.
Þessi líðan átti eftir að fylgja svo alltof lengi, í áratugi, lita alla tilveruna, ekki bara hennar, heldur einnig þeirra er gengu með henni lífsveginn.
Hún týndi tengingunni við sjálfa sig, enda kvíðinn og skömmin ríkjandi hið innra, því betra að forðast það að líta þangað.
Óttinn við að umheimurinn uppgötvaði leindarmálið, myndaði varnarvegg, vegg sem útilokaði umhverfið, útilokaði innri sátt, tengingu við hinn innri kjarna, hún damlaði þarna inná milli, í einhverju tómarúmi, lullaði í gegnum tilveruna, svona einhvernveginn.
Hún lærði svo vel að vera fórnarlamb, sýna sig útfrá því hlutverki, tók ákvarðanir í lífinu, útfrá því hlutverki, sá ekki aðra möguleika, enda hafði hún ekki tengingar við það, að veröldin gæti verið á annan hátt.
Fram kom reiðin, hún átti það til að brjótast fram, í stjórnleysi og af ofsa, en henni fannst betra að hafa stjórnina, því náði hún smám saman að hemja reiðina, kyngja henni, loka hana af, þar sem hún ekki sást með berum augum.
Hún hélt hún gæti falið hana, en það var í raun blekking, þeir sem vildu sjá reiðina, gátu auðveldlega séð hana, settu hana samt ekki í rétt samhengi, enda gerðu þau sér ekki grein fyrir afleiðingunum á sálinni...
Hún tamdi sér að dansa línudans, ekki standa of fast á sínu, eiga það á hættu að styggja fólk, það gat verið hættulegt, ekki trufla, ekki pirra, ekki bera á borð of mikið af eigin vilja, gera kröfur, ekki..... já kanski bara ekki vera til, ekki vera fyrir.
Hún tamdi sér að þóknast, vera til staðar, nú eða laumast í burtu, hægt og hljótt, í þeirri von að enginn tæki eftir henni, það var öruggast.
Hún týndi tengingunni við eigin vilja, eigin þrár, hún fókusaði á vilja annarra, jafnvel, það sem hún hélt að væri vilji annarra, hún jafnvel gerði vilja annarra að sínum, því hver var hennar vilji? hún var ekki lengur viss, þannig damlaði hún áfram, allar götur þar til hún varð tóm, átti ekki lengur neitt að gefa, svo týnd.
Ein útí horni, þar fann hún öryggi, í einangruninni fann hún sitt öryggi, á sama tíma var einmanaleikinn, á köflum yfirþyrmandi, tengslin rofin á svo margvíslegan máta, hún kunni ekki að tengjast, óttaðist það að tengjast fólki, vissi heldur ekki hvernig, eða hvort það væri óhætt, öruggast því að gera sem minnst af því.
Ef fólk kom of nálægt, þá var betra að urra aðeins, fæla frá sér, eða að forða sér, á sama tíma var þráin hið innra, eftir tengslum, flækja, já, en á sama tíma raunveruleiki.
Þannig damlaði tilveran áfram, í nokkra áratugi, þar til hún var að kafna, þar til ekkert var eftir, þá! og akkúrat þá, þegar hún gat ekki meir, þá kom að því að hún reis upp, fór í það verkefni að hrista af sér fortíðina. Það tók á, það tók mikla orku og það tók mörg ár.
Líkt og Fönixinn reis hún upp, fór að standa betur með sjálfri sér, á svo margvíslegan máta, eitt skref í einu, hægt og hljótt, prufaði hún sig áfram, í nýrri tilveru, fór að hætta sér lengra og lengra inná við, skoða gömlu leynarmálin, gömlu sárin á sálinni.... ahhh.... hún gaf þeim leifi til að gróa, reiðin braust út, og svo sannarlega kom hún fram af miklum þunga, tók með sér mörg kíló af sálinni, svoooo gott.
Hún uppgötvaði að hún átti styrk hið innra, mun meiri styrk en hún hafði áður áttað sig á, hún uppgötvaði muninn á skilyrtum og óskilyrtum kærleika.
Vá! Hún uppgötvaði að hún á til óskilyrtan kærleika, svo mikið að gefa, og hún uppgötvaði að hún má gefja sjálfri sér kærleika, það er ekki eigingirni eða óeðlileg sjálfselska.
Einmanaleikinn hvarf, í einverunni hvarf einmanaleikinn, þvílíkur léttir... gott.
Eitt skref í einu og tilveran umbreyttist, hin innri veröld tók hamskiptum, gleðin í hjartanu óx og óx, hún áttaði sig á því, að hún gat valið fyrir sig í lífinu, útfrá eigin vilja, óháð vilja annarra, útfrá öðrum forsendum en áður, forsendum sem hún áður þekkti ekki, því það sem hún áður þekkti ekki, gat þar með ekki verið henni aðgengilegt.
Hún uppgötvaði nýja tilveru.
Hún heldur áfram að vaxa, styrkjast, kynnast sjálfri sér uppá nýtt, uppgötva nýja fleti á tilverunni, skilja betur.
Hún er þakklát fyrir lærdóminn, hún er þakklát fyrir að hafa fundið leiðina útúr fangelsi hugans, fangelsi þess að þekkja ekki, fangelsi þess að hafa ekki séð útúr því hlutverki sem hún áður lærði að þekkja svo vel.
Það er ekki öllum gefið. Sigríður I Helgadóttir.
Comments